Skólastarf fellur niður í Árborg á mánudag

Sunnulækjarskóli á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Skólastarf leik- og grunnskólabarna í Sveitarfélaginu Árborg fellur niður mánudaginn 16. mars.

Dagurinn verður nýttur af stjórnendum og starfsfólki til endurskipulagningar starfsins í ljósi samkomubanns sem sett hefur verið á næstu fjórar vikurnar.

Þrátt fyrir samkomubann þá mega leik- og grunnskólar halda uppi skólastarfi. Í grunnskólum þarf að tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, til dæmis í mötuneyti eða frímínútum. Leikskólar þurfa að tryggja að börn séu í fámennum hópum og aðskilin eins og kostur er.

Á meðan samkomubannið er í gildi þarf að þrífa og sótthreinsa allar skólabyggingar daglega.

Í skólunum í Árborg var áætlaður starfsdagur næstkomandi miðvikudag, en hann hefur nú verið færður fram til mánudags og nýttur í þessa skipulagsvinnu.

Fyrri greinKennari í FSu með COVID-19
Næsta greinKörfuboltaleik frestað vegna hugsanlegs smits