Skólastarf Stekkjaskóla hefst í Bifröst

Stekkjaskóli á Selfossi. Ljósmynd/Jón Sveinberg Birgisson

Skólastarf í nýjum Stekkjaskóla á Selfossi mun hefjast í frístundaheimilinu Bifröst við Vallaskóla.

Færanlegar kennslustofur við Stekkjaskóla áttu að vera tilbúnar þann 31. júlí síðastliðinn og í samtali við sunnlenska.is þann 23. júlí sagði Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, að verktakinn við bygginguna þyrfti á kraftaverki að halda til að ljúka henni á réttum tíma. Kraftaverkið átti sér ekki stað og því mun skólastarfið hefjast í Bifröst.

Í tilkynningu frá Sveitarfélaginu Árborg segir að í Bifröst sé hægt að taka á móti öllum nemendum skólans á einum stað og halda vel utan um nemendahópinn en um 120 nemendur í 1.-4. bekk hefja nám í skólanum í haust. Gott aðgengi sé að skólalóð Vallaskóla og íþróttamannvirkjum í næsta nágrenni.

Skólasetning Stekkjaskóla verður þriðjudaginn 24. ágúst og áætlað er að hefja kennslu í nýju húsnæði Stekkjaskóla þann 20. september næstkomandi.

Fyrri greinLögreglan lýsir eftir Guðbrandi
Næsta greinEnn eitt svekkelsið hjá Selfyssingum