Samstöðufundur verður haldinn á bökkum Ölfusár við Hótel Selfoss kl. 17 í dag til að mótmæla niðurskurði á HSu.
Á sama tíma munu sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi funda með heilbrigðisráðherra, þingmönnum og forsvarsmönnum heilbrigðisstofnana á Suðurlandi á veitingastaðnum Riverside í Hótel Selfoss.
Fundarstjórar á samstöðufundinum eru Kjartan Ólafsson og Ármann Ægir Magnússon. Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður SASS, setur fundinn en ávörp flytja Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga á Hsu, Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags og Rosemarie B. Þorleifsdóttir, formaður SSK.
Á milli ávarpanna verða tónlistaratriði. Ávörpum af innifundinum verður miðlað til útifundarins og getur dagskrá því raskast af þeim sökum.
Fundinum verður einnig útvarpað á Útvarpi Suðurlands. Fundarboðendur skora á Sunnlendinga að fjölmenna á fundinn.