Hreppsnefnd Hrunamannahrepps gerir „alvarlegar athugasemdir“ við fyrirhugaðar breytingar á hækkun á ökuleyfisaldri úr 17 ára í 18 ára.
Auk þess átelur hreppsnefndin breytingar um að hækka aldur þeirra sem stjórna dráttarvél við landbúnaðarstörf úr 15 ára upp í 16 ára aldur.
Telur hreppsnefndin þessar breytingar til þess fallnar að hafa „gífurlega íþyngjandi áhrif, sérstaklega á landsbyggðina. Bendir nefndin á að fyrra fyrirkomulag hafi ekki verið til vandræða, þetta sé vísir að forræðishyggju og með þessum breytingum aukist tilkostnaður heimila og erfiði atvinnuþátttöku.
Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri og Ragnar Magnússon, oddviti, mættu fyrir samgöngunefnd Alþingis til að gagnrýna þessi atriði við umfjöllun samgöngunefndar á umferðarlögunum.
Segir Jón að þeir hafi fært rök fyrir gagnrýni sinni og þótt hann vilji alls ekki gera lítið úr öryggisþættinum þá telji hreppsnefnd að ekki sé komin nægjanleg reynsla á nýtilkomnar breytingar á umferðarlögum til að réttlæta þessar breytingar núna.