Skora á HSU að hætta við uppsagnir ræstingafólks

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stéttarfélögin á Suðurlandi skora á stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að hætta við fyrirhugaðar uppsagnir starfsfólks í ræstingum og þvottahúsi.

Sólar ehf mun taka við starfseminni þann 1. maí næstkomandi og í tengslum við breytingarnar eru lögð niður átta stöðugildi á HSU á Selfossi og fimm á HSU í Vestmannaeyjum.

HSU bauð út ræstingaþjónustu stofnunarinnar á vegum Ríkiskaupa og átti Sólar hagstæðasta tilboðið, 69,9 milljónir króna á ári. Árið 2019 var rekstrarkostnaður HSU vegna ræstinga 138 milljónir og áætlað að kostnaður ársins 2020 nemi 147 milljónum.

Ísköld kveðja til starfsmanna HSU
Á vef Ríkiskaupa er birt frétt um þetta „árangursríka útboð“ þar sem kemur fram að um umtalsverða hagræðingu sé að ræða. Fréttin leggst illa í forsvarsmenn stéttarfélaganna sem segja hana hljóma eins og siguryfirlýsing og sé ísköld kveðja til starfsmanna HSU.

„Dæmalaus siguryfirlýsing um að tekist hafi að lækka launakostnað starfsfólks, sem er á algjörum lágmarkstöxtum við erfiða vinnu. Þetta eru kaldar kveðjur frá yfirstjórn stofnunarinnar og vægast sagt lítilsvirðing fyrir störfum þessa hóps sem hafa ekki síður verið í framlínunni sérstaklega á tímum þessarar farsóttar,“ segir í bréfi stéttarfélaganna þar sem skorað er á stjórn HSU að hætta við fyrirhugaðar uppsagnir og um leið aðför að  þessum störfum.

„Enn og aftur eru það starfsmenn í ræstingu og nú einnig í þvottahúsi […] sem verða fyrir barðinu á uppsögnum vegna „hagræðingar“. Afl starfsgreinafélag, Báran stéttarfélag,  Drífandi stéttarfélag og Verkalýðsfélag Suðurlands mótmæla fyrirhuguðum uppsögnum á ræstingafólki og starfsmönnum í þvottahúsi hjá HSU. Réttindi og kjör þeirra starfsmanna sem munu verða ráðnir í þessi störf munu verða lakari en hjá þeim starfsmönnum sem hafa gengt þeim til þessa. Starfsmönnum var tilkynnt í framhaldinu að ekki væri óskað eftir starfsumsóknum frá þeim hjá nýjum atvinnurekanda,“ segir ennfremur í bréfi stéttarfélaganna.

Erfiðar aðgerðir
Í samtali við sunnlenska.is sagði Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, að stofnunin hefði á síðasta ári ákveðið að bjóða út ræstingaþjónustu stofnunarinnar til að mæta hagræðingarkröfum og ná niður hallarekstri.

„HSU fylgir þar fordæmi fjölda annarra ríkisstofnana og sveitarfélaga. Aðgerðir sem þessar eru að sjálfsögðu alltaf erfiðar, en fjárhagslega óumflýjanlegar,“ segir Díana.

Fyrri greinSkjálftarnir fundust um allt Suðurland
Næsta greinNítugasta og níunda HSK þingið haldið í apríl