Skora á ráðherra vegna Dyrhólaeyjar

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands skorar á umhverfisráðherra að koma á réttlátri stjórnun friðlandsins í Dyrhólaey.

Fundurinn, sem haldinn var á Selfossi 5. maí, segir að virða þurfi meginákvæði friðlýsingarinnar, rétt íbúanna til sjálfbærrar nýtingar á svæðinu, og stuðla að endurreisn fuglalífs sem er megin aðdráttarafl eynnar fyrir ferðafólk.

Fundurinn skorar á ráðherra að beita sér fyrir því að ákvarðanir um stjórnun og rekstur eynnar stefni þessum markmiðum ekki í hættu, heldur tryggi áframhaldandi ábyrgð íbúanna í Dyrhólahverfi á verndun og nýtingu eynnar, í samstarfi við aðra landeigendur og opinbera aðila.

Um leið og fundurinn fagnar ákvörðun um auknar fjárveitingar til staðarins hvetur fundurinn ráðherra til að beita sér fyrir því að staðnum sé lokað fyrir almennri umferð á varptíma með það fyrir augum að endurreisa lamað fuglalíf eynnar, sem verða mun öllum aðilum til hagsbóta ef til lengri tíma er litið.

Fyrri greinSextán kitluðu pinnann
Næsta greinHátíð á Helluvelli