Skora á SA að sýna launþegum virðingu

Báran, stéttarfélag fagnar þeim stuðningi sem er í þjóðfélaginu varðandi kröfur Starfsgreinasambands Íslands um 300 þúsund króna lágmarkslaun innan þriggja ára.

Jafnframt harmar félagið það skilningsleysi sem endurspeglast í viðbrögðum forystumanna Samtaka atvinnulífsins.

Samninganefnd Bárunnar, stéttarfélags skorar á forsvarsmenn atvinnulífsins að endurskoða afstöðu Samtaka atvinnulífsins til þeirra krafna sem sextán félög í SGS hafa lagt fram. Krafan um 300 þúsund króna lágmarkslaun innan þriggja ára.

Krafan er í fullu samræmi við þau lágmarks neysluviðmið sem gefin hafa verið út af opinberum aðilum. Samningsaðilar á vinnumarkaði hljóta að hafa þá samfélagslegu skyldu að tryggja öllum laun sem duga til framfærslu, annað er ekki ásættanlegt í íslensku nútíma samfélagi.

Samninganefnd Bárunnar skorar á SA að koma að samningaborðinu og sýna launþegum þá virðingu að semja um laun sem endurspegli þau neysluviðmið sem gildandi eru í samfélaginu.

Báran, stéttarfélag kallar einnig eftir skilgreiningu Samtaka atvinnulífsins á hinu norræna módeli þegar dagvinnulaun á Íslandi eru nær þriðjungi lægri en á hinum Norðurlöndunum.

Fyrri greinSóley valin íþróttamaður Hamars
Næsta greinHraði og hlátur í fínum farsa