Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar furðar sig á þeirri stöðu sem kom upp í byrjun vikunnar þegar vegurinn um Hellisheiði var lokaður fyrir allri umferð í þrjá sólarhringa, eins og það er orðað í bókun bæjarstjórnar.
„Leita þarf langt aftur í tímann, jafnvel áratugi, til að rifja upp slíkt ástand. Bæjarstjórn skorar á Vegagerðina að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og að vetrarþjónusta verði eins og best er á kosið,“ segir í bókun sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær.
Í bókuninni ítrekar bæjarstjórn Hveragerðisbæjar mikilvægi þess að þessari fjölförnu samgönguæð sé haldið opinni sé þess nokkur kostur.
„Fjölmargir sækja vinnu eða skóla á milli Suðurlandsundirlendisins og höfuðborgarsvæðisins og fjölgar sífellt í þeim hópi. Fyrirtæki sinna þjónustu þvert á svæðin og eru greiðar samgöngur þeim mikilvægar. Að síðustu er rétt að minna á að greiðar samgöngur á milli þessara þéttbýlu svæða eru nauðsynlegar vegna öryggis íbúa,“ segir ennfremur í bókun bæjarstjórnar.
Vegurinn yfir Hellisheiði var lokaður frá klukkan tvö aðfaranótt mánudags til klukkan tíu á þriðjudagskvöld og síðan aftur frá klukkan hálf fimm á miðvikudagsmorgun til klukkan hálf fimm á miðvikudag.