Sveitarstjórn Skaftárhrepps vill færa öllum þeim aðilum sem komu með einum eða öðrum hætti að banaslysinu síðastliðinn miðvikudag, þegar rúta valt í Eldhrauni, alúðarþakkir fyrir ómetanlega vinnu á vettvangi sem og alla veitta aðstoð í kjölfar slyssins.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Skaftárhreppi.
„Það má öllum vera ljóst hversu gríðarlegt álag hvíldi á öllu því fólki sem kom að þessu verkefni og þá ekki hvað síst þeim aðilum sem fyrstir komu á vettvang slyssins. Það er aðdáunarvert hversu glöggt kom í ljós þennan dag hve rík samhjálp og samvinna þeirra fjölmörgu aðila björgunarliðs einkenndi aðgerðirnar. Að njóta aðstoðar lögreglu, slökkviliða, heilbrigðisstarfsfólks, rauða krossins og björgunarsveita af nær öllu Suðurlandi auk fjölmargra almennra borgara er ómetanlegt og sýnir í raun hvers við erum megnug saman í svona aðstæðum,“ segir í tilkynningunni.
„Ljóst þykir af aðstæðum á vettvangi að þjónustu við vegakerfi sveitarfélagsins, þeirrar einu samgönguleiðar okkar hér í Skaftárhreppi, er verulega ábótavant. Þjónusta sem á engan hátt fylgir þeirri gríðarlegu aukningu umferðar sem um vegina fer, jafnt að sumri sem vetri,“ segir ennfremur í tilkynningunni en sveitarstjórn Skaftárhrepps „skorar á samgönguráðherra sem og samgönguyfirvöld að bregðast við þessum breyttu aðstæðum og leita allra færra leiða til að bæta ástand samgöngukerfisins, í þágu okkar allra.“