Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á ríkisstjórn Íslands að beina þeim tilmælum til stjórnar Landsvirkjunar, stjórnar Landsnets og stjórnar Rarik að hefja stefnumótun til framtíðar þar sem höfuðstöðvar fyrirtækjanna verði í nærumhverfi orkuvinnslunnar.
Þetta kemur fram í áskorun sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar í gær en þar er einnig skorað á stjórn Landsvirkjunar, stjórn Landsnets og stjórn Rarik að hafa frumkvæði að því að móta stefnu til framtíðar um að störf í orkuvinnslu verði byggð upp í nærumhverfi orkuvinnslunnar og höfuðstöðvar verði fluttar á Suðurland, þar sem stærsti hluti raforkuframleiðslu Íslands á sér stað.
„Orkuvinnsla á Íslandi á sér stað að megninu til á landsbyggðinni. Sú stefna sem rekin hefur verið í uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi að hafa höfuðstöðvar stærstu orkufyrirtækja landsins allar á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að engin orkuvinnsla eigi sér stað þar, gengur ekki lengur,“ segir í áskoruninni og því bætt við að verðmætasköpun þessara fyrirtækja eigi sér stað á landsbyggðinni en verðmætustu störfin séu staðsett á höfuðborgarsvæðinu.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps vísar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir meðal annars að til þess að styðja við byggðaþróun verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.
„Mikilvægt er á þeim tímamótum sem við stöndum að horfa til framtíðar og marka stefnu um að störf í orkuvinnslu á Íslandi verði staðsett þar sem verðmætasköpunin á sér stað. Mörkum stefnu um að flytja höfuðstöðvar orkufyrirtækja í eigu ríkisins í nærumhverfi orkuframleiðslunnar og sköpum öfluga starfsaðstöðu og forsendur klasasamstarfs, þekkingarmiðstöðva og rannsóknarsetra víða um land, allt tengt grænni orku,“ segir ennfremur í áskorun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.