Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi framtíð starfsmenntanáms garðyrkjunnar á Íslandi að Reykjum í Ölfusi.
Ráðherra mennta- og menningarmála hefur þegar ákveðið að aðskilja garðyrkjunámið frá Landbúnaðarháskóla Íslands og flytja námið til Fjölbrautaskóla Suðurlands.
„Við breytinguna verður að tryggja starfsmenntanáminu nauðsynlega fjármögnun og örugga starfsaðstöðu að Reykjum þar
sem skólinn hefur verið rekinn hátt í hundrað ár enda verður ekki hægt að kenna garðyrkju nema með aðgangi að aðstöðu og svæði til ræktunar,“ segir í ályktun frá síðasta stjórnarfundi SASS.
„Í Garðyrkjuskólanum er fjölbreytt menntun í sex atvinnugreinum sem eru allar mikilvægar fyrir Suðurland en auk þess er áhersla á að efla iðn– og verknám í landinu. Nám við skólann hefur verið aðgengilegt fyrir nemendur á öllum aldri og þarf að tryggja að svo verði áfram þrátt fyrir breytingarnar,“ segir ennfremur á ályktuninni og því bætt við að brýnt sé að tryggja að áfram verði boðið upp á metnaðarfullt garðyrkjunám jafnframt því að vinna að nýsköpun í greininni.