Skorar á Vegagerðina að opna aftur fyrir umferð

Vegurinn var rofinn við Stóru-Laxá þann 19. janúar síðastliðinn. sunnlenska.is/Erla Björg Arnardóttir

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps skorar á Vegagerðina að gera allt sem mögulegt er til að tryggja umferð um Skeiða- og Hrunamannaveg þegar í stað en vegurinn hefur verið lokaður við Stóru-Laxá síðan 19. janúar.

Á fundi sveitarstjórnar í gær var samþykkt bókun vegna málsins þar sem þessi áskorun kemur fram.

„Sveitarstjórn hefur ríkan skilning á þeim aðstæðum sem sköpuðust og gerðu það nauðsynlegt að vegur nr. 30 við Stóru-Laxá var rofinn til að bjarga þar mannvirkjum. Nú hefur lokunin aftur á móti varað lengur en nokkurn gat grunað og í upphafi var gert ráð fyrir. Eru aðstæður nú orðnar grafalvarlegar og þessi langa lokun hefurþegar haft gríðarleg áhrif á samfélagið allt hér í Uppsveitum Árnessýslu,“ segir í bókun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps.

Sveitarstjórnin minnir á að umræddur vegur er stofnvegur og þeim er ætlað að tengja saman byggðir landsins. Með lokuninni er skorið á mikilvæga samgönguæð og má þar til dæmis minna á skólaakstur barna sem lengst hefur um allt að klukkustund á dag í verstu tilfellum og þá hefur lokunin haft afdrifarík áhrif á atvinnulíf og ekki síst ferðaþjónustu, að sögn sveitarstjórnar.

„Sveitarstjórn telur að með auðveldum hætti hefði verið hægt að opna veginn með einföldu ræsi í framhjáhlaupinu þar sem nú rennur nánast ekkert vatn um eftir að Stóra-Laxá ruddisig,“ segir ennfremur í bókun sveitarstjórnar.

Fyrri grein„Það er ekkert í boði að slá af“
Næsta greinBjörgvin ráðinn hótelstjóri Hótel Selfoss