Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga skorar á Vegagerðina og ríkisstjórn Íslands að ljúka samningum um nýja Ölfusárbrú og tryggja fjármögnun án tafar.
Málið var rætt á síðasta stjórnarfundi SASS og þar tekið undir bókun bæjarstjórnar Árborgar sem lögð var fram á dögunum.
„Brýnt er að uppbygging brúarinnar hefjist því þjóðvegurinn gegnum Selfoss annar ekki núverandi umferð og langar raðir liggja daglega um Austurveg. Ný Ölfusárbrú bætir umferðarflæði og -öryggi í og við Selfoss og hún er mikilvæg samgöngubót fyrir Suðurland. Gera má ráð fyrir að uppbygging nýrrar brúar taki um þrjú ár og því er nauðsynlegt að framkvæmdir hefjist í haust,“ segir í bókun stjórnar SASS.