Mikið var um eignaspjöll og þjófnaði í umdæmi Selfosslögreglu í liðinni viku.
Á fimmtudagskvöld eða aðfaranótt föstudag tóku einhverjir sig til og skáru á 62 heyrúllur við bæinn Vatnsleysu í Biskupstungum. Ljóst er að þar er um að ræða tjón sem talið er í hundruðum þúsunda en umtalsverður kostnaður felst í því að pakka rúllunum upp og óvíst er hversu mikið tjón verður á heyinu við það að súrefni kemst að því.
Þá var farið inn í geymsluskúr við golfvöllinn í Úthlíð og þar spreyjað á veggi auk þess sem stolið var golfsetti. Sömu aðilar virðast einnig hafa farið inn á salerni við tjaldstæðið þar og spreyjað á veggi.
Skemmdir voru unnar á grænni Toyota bifreið sem skilin var eftir við Þrengslaveg á sunnudag og úr henni stolð útvarpstæki. Þá voru brotnar fjórar rúður í gróðurhúsi við Bröttuhlíð í Hveragerði einhvern tíman á bilinu frá laugardegi til mánudags.
Stolið var fjórum 38″ dekkjum undan bíl á Flúðum annað hvort þann 12. eða 13. ágúst en verðmæti hvers hjólbarða á felgum mun láta nærri að vera um 100 þúsund krónur.
Þá var stolið brettakanti af vinstra frambretti á Musso jeppa sem stóð við hafnarhúsið í Þorlákshöfn en þjófnaðarins varð vart sl. fimmtudag. Lögregla telur ljóst að einhver státi nú af nýjum og glansandi brettakanti sem áður hefur verið laskaður.