Vegagerðin og Ístak hf. skrifuðu í síðustu viku undir samning um breikkun Suðurlandsvegar á Hellisheiði og niður Kamba. Framkvæmdir hefjast í haust.
Ístak átti lægsta tilboðið í útboði fyrr í sumar en tilboð Ístaks hljóðaði upp á rúma 1,3 milljarða króna.
Verkið felst í breikkun Hringvegar á 14,8 km kafla um Hellisheiði, frá Hamargilsvegamótum að hringtorgi við Hveragerði og gerð 1,8 km langs vegar, Skíðaskálavegar, frá Hamragilsvegi að skíðaskála í Hveradölum. Innifalið í verkinu er lögn fernra undirganga úr stálplötum á Hringvegi og steyptur stokkur yfir lagnir Orkuveitu Reykjavíkur á Skíðaskálavegi.
Vegurinn verður að framkvæmdum loknum 2+1 vegur yfir heiðina og 2+2 vegur í Kömbunum eða fjórar akreinar. Vegurinn verður með aðskildum akstursreinum alla leið, með miðjuvegriði. Framkvæmdir munu hefjast vestast á þessum kafla.