Skrifað undir viljayfirlýsingu um viðbyggingu

Í dag var undirrituð viljayfirlýsing um uppbyggingu nýrrar heilabilunardeildar við Dvalar-og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu. Guðbjartur Hannesson, velferðaráðherra, Drífa Hjartardóttir, sveitarstjóri og formaður stjórnar Lundar og Eydís Indriðadóttir oddviti Ásahrepps undirrituðu viljayfirlýsinguna.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að velferðarráðuneytið og sveitarfélögin Rangárþing ytra og Ásahreppur lýsa yfir vilja sínum til að ljúka við fyrirhugaða viðbyggingu við Lund.

Framkvæmdunum er ætlað að bæta húsakost stofnunarinnar, fjölga einbýlum og færa aðbúnað heimilismanna til nútímahorfs og til samræmis við þær kröfur sem velferðarráðuneytið gerir til aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum.

Framkvæmdin hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði aldraðra árið 2011 en forsendur annarrar fjármögnunar hafa breyst og því lýsa aðilar þeirri skoðun að hefðbundin fjármögnunarleið sé fýsilegasti kosturinn, þ.e. að kostnaður skiptist milli ríkissjóðs, Framkvæmdasjóðs aldraða og sveitarfélagsins.

Aðalteikningar liggja fyrir og hefur verið fengið samþykki byggingaryfirvalda í Rangárþingi ytra fyrir framkvæmdinni.

Verkið hefur verið boðið út og verður leitað heimildar fjármálaráðuneytis, Rangárþings ytra og Ásahrepps til samningagerðar á grundvelli hagkvæmasta tilboðs. Stefnt er að því að framkvæmdinni verði hraðað eftir því sem kostur er.

Fyrri greinÓli og Hildur: Ungt fólk og kjörklefinn
Næsta greinStefna að opnun í maí