Í lok árs 2010 námu skuldir Sveitarfélagsins Árborgar liðlega 200% af tekjum en þar á bæ virðist þó nokkuð hafa áunnist í skuldamálunum á undanförnum misserum.
Í umfjöllun í Viðskiptablaðinu í gær kemur fram að í grófum dráttum megi segja að skuldabagginn í Árborg sé nokkuð mikill en þó væntanlega viðráðanlegur.
Miðað við fjárhagsáætlun Árborgar fyrir árið 2011 og 2012 sem samþykkt var skömmu fyrir áramótin var skuldahlutfall samstæðu Árborgar komið niður í um 168% um áramótin en hlutfallið er svipað fyrir sveitarsjóðinn sjálfan og síðan samstæðuna, þ.e. stofnanir og fyrirtæki í eigu þess.
Í áætlun fyrir árið 2012 er síðan gert ráð fyrir að skuldahlutfallið lækki enn frekar og verði komið niður undir 150% í lok ársins en þar er reiknað með að tekjur sveitarfélagsins vaxi nokkuð milli ára eða um 7% eða svo.