Niðurstaða ársreiknings Sveitarfélagsins Ölfuss árið 2019 sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu A og B hluta um rúmlega 300 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða A og B hluta vegna ársins 2018 var á sama hátt jákvæð um 242,8 milljónir króna. Rekstarniðurstaða A hluta var jákvæð um 195 milljón króna. Samkvæmt efnahagsreikningi nema heildareignir A og B hluta rúmlega 5,2 milljörðum króna. Bókfært eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2019 nam 2.964 milljónum króna og er eiginfjárhlutfall sveitarfélagsins 56,8 %.
„Ánægjulegt er að sjá að skatttekjur án framlaga úr jöfnunarsjóði hækka úr 1,4 milljarði árið 2018 í 1,6 milljarð árið 2019. Þar með hafa skatttekjur hækkað um 16% frá árinu 2017. Skýringin á þessum auknu tekjum liggur í því að íbúafjölgun hefur verið mikil á þessum tíma,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri.
Íbúum Ölfuss fjölgaði um 5,5% á árinu 2019 og hefur þeim þar með fjölgað um 13,3% á fjórum árum. Allt útlit er fyrir að íbúum fjölgi áfram á árinu 2020 enda mikil og hröð umsvif í byggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu.
Sé rýnt í málaflokka fara 50,4% af skatttekjum sveitarfélagins í fræðslu- og uppeldismál, 14,9% í félagsþjónustu og 14,2% í íþrótta- og æskulýðsmál. Samtals taka þessir þrír málaflokkar því til sín 79,5% af rekstrargjöldunum.
Skuldaviðmið Sveitarfélagsins Ölfuss þann 31. desember 2019 var 57,00% en var 69,71% í árslok 2018. Skuldir á hvern íbúa af samstæðu A og B hluta lækka um 62 þúsund á árinu eða úr 848 þúsund niður í 786 þúsund.
Rekstrartekjur hafnarinnar árið 2019 voru 229 milljónir króna og hækka um 12%. Rekstrarniðurstaða hafnarinnar voru rétt tæpar 87 milljónir króna.
„Fáum dylst að höfnin í Þorlákshöfn hefur tekið stakkaskiptum með tilkomu siglinga Smyril Line. Mat flestra er að uppbygging hafnarinnar sem inn- og útflutningshafnar sé rétt að hefjast og árangurinn, svo magnaður sem hann er, sé einungis reykurinn af réttinum og frekari vöxtur er framundan,“ segir Elliði bætir við að lokum að niðurstaða ársreikninga sveitarfélagsins sé fyrst og fremst hvatning fyrir bæjarstjórn til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni.
„Vandaður rekstur er það sem helst tryggir öfluga og góða þjónustu. Í Ölfusi hefur verið byggt upp sterkt þjónustunet þar sem skólarnir og íþróttaaðstaðan eru meðal helstu flaggskipa þjónustunnar. Sveitarfélagið Ölfus vinnur nú að því að nýta þá sterku stöðu sem birtist í ársreikningunum til að bæta þjónustu við bæjarbúa enn frekar og eftir atvikum að bjóða nýja íbúa velkomna. Það er því ekki ofsögum sagt þegar Jónas Sig bendir á að hamingjan sé hér,“ segir Elliði að lokum.