Heildarfjárhupphæð styrkveitinga til nýsköpunar og menningarverkefna á Suðurlandi nemur um 30 milljónum króna að þessu sinni, en veitt er úr uppbyggingarsjóði Suðurlands, sem er hluti af Sóknaráætlun Suðurlands.
Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári. Bárust 86 umsóknir en 52 verkefni fengu styrk. Úthlutað var um 17 milljónum króna til 39 menningarverkefna og um 13 milljónum króna til 13 nýsköpunarverkefna.
Hæsta nýsköpunarstyrkinn fék Skyrgerðin í Hveragerði og Skyr guesthouse þar í bæ, alls 2 milljónir króna. Verkefnið felst í þróun og uppbyggingu gömlu skyrgerðarinnar í Hveragerði þar sem viðfangsefnið er skyrgerð Ölfusinga frá 1930.
Þrjú verkefni hlutu 1,5 milljónir króna hvert, það voru verkefni um áhrif ljósstyrks á uppskeru, vöxt og gæði „everbearers“ í samanburði við hefðbundna gróðurhúsarækun jarðarberja að vetri til. Er það Christina Stadler í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands sem er í forsvari fyrir það verkefni. Korngrís kjötvinnsla, hönnun og þróun við uppsetningu kjötvinnslu fékk einnig 1,5 milljón sem og Skólabúðir á Suðurlandi, sem unnið verður af Skátum á Úlfljótsvatni.
Styrkir voru lægri og fleiri í menningargeiranum, en þar fengu kvikmyndargerðarmenn 800 þúsund krónur til gerðar myndar um gosið í Heimaey 1973, annað kvikmyndaverkefni, Hvítur, hvítur dagur, fékk sömu upphæð, sem og verkefnin Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu, sem er málþing, Sögulegar ljósmyndir úr Skaftárhreppi og Sumartónleikar í Skálholti.
Meðal athyglisverðra verkefna sem hlutu styrk má nefna Gull-Auga, sunnlenska kvikmyndahátíð 2017, og sýning á myntsafni Helga Ívarssonar á vegum Héraðsskjalasafns Árnesinga, sem hlaut 300 þúsund krónur.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni í landshlutanum. Verkefnastjórn Sóknaráætlunar á Suðurlandi fer með hlutverk úthlutunarnefndar en fagráð á sviði menningarmála annars vegar og nýsköpunar hins vegar, skila tillögum til verkefnastjórnar. Umsjón og ábyrgð Uppbyggingarsjóðsins er hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.