Ofáætlaðar tekjur hafa valdið því að nokkur halli verður á reikningum Mýrdalshrepps á yfirstandandi ári.
Sveitastjórn hefur tekið til meðferðar tillögu að endurskoðaðri fjárhagsáætlun Mýrdalshrepps þar sem kemur fram að rekstarniðurstaða A og B hluta er neikvæð um 9,7 milljónir króna. Að sögn Ásgeirs Magnússonar sveitarstjóra gæti þessi tala átt eftir að hækka eitthvað.
,,Ætli samdrátturinn skýrist ekki aðallega af tekjusamdrætti, fólksfækkun og lægri tekjur hafa áhrif á útsvarið. Einnig hefur kostnaður orðið heldur hærri,“ sagði Ásgeir. Þess má geta að niðurstöðutölur efnahagsreikningsins gera nú ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins á yfirstandandi ári verði kr. 469.693.000.