Stór jeppi með kerru hafði þeyst út í skurð, grindverk höfðu lagst á hliðina og járnplötur fokið hundruð metra þegar heimilisfólk í Norðurhjáleigu í Áftaveri kom heim í dag.
RÚV greinir frá þessu og hefur eftir Þorsteini V. Jónssyni, veðurfræðingi, að þarna hafi skýstrókur myndast, nokkrir tugir metra að stærð, staðbundinn og mjög öflugur.
Mjög óvenjulegt fyrirbæri á Íslandi
„Þetta er mjög óvenjulegt fyrirbæri á Íslandi. Stórir skúrabakkar uxu á þessum slóðum rétt fyrir kaffileytið og þarna voru þrumur, haglél og eldingar. Spár Veðurstofunnar höfðu gefið til kynna að óstöðugleiki kynni að verða í veðri á þessum slóðum en mjög erfitt er að spá fyrir um skýstrokka,“ segir Þorsteinn.
Þakplötur og drasl út um allt
Sæunn Káradóttir bóndi á Norðurhjáleigu hefur ekki áður lent í öðru eins og heimkomunni í dag. „Hún var bara ólýsanleg. Það voru þakplötur og drasl út um allt. Höfðu lamið niður girðingar og heilu þökin fokin burtu,“ segir Sæunn. „Við vorum ekki heima akkurat þegar þetta gerðist en nágrannakona okkar hringdi í okkur og lét okkur vita af þessu. Við hringdum svo í annan nágranna sem býr ekki langt frá og vissi ekki að neitt gæti gerst þess háttar,“ segir Sæunn í samtali við RÚV.