Slæm umgengni á gámasvæði

Rangárþing ytra kvartar yfir slæmri umgengni á gámasvæði sveitarfélagsins við Landvegamót. Þar hafa einhverjir nýtt svæðið fyrir grófan úrgang, sem á að fara á gámasvæðið á Strönd.

Á gámasvæðinu við Landvegamót eru þrír gámar sem ætlaðir eru fyrir bylgjupappa og almennt heimilissorp. Gámavæðin eru hugsaðir fyrir frístundasvæði og almenna ferðamenn en allir sem hafa lögheimili í sveitarfélaginu eru með tunnur við sín heimili, bæði fyrir almennt sorp og pappír.

Gámarnir við Landvegamót eru merktir og hefur þetta fyrirkomulag gengið ágætlega í vetur. Nú nýverið var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn þar sem einhver hafði skilið ýmsan grófan úrgang eftir á milli gámanna.

Sveitarfélagið hefur nú látið þjónustumiðstöðina fjarlægja úrganginn í þessu tilfelli en ekki er gert ráð fyrir því í áætlunum, hvorki hvað varðar fjármagn eða mannafla í þjónustumiðstöð. Förgunarkostnaður eykst og ef umgengni sem þessi heldur áfram þarf líklega að grípa til sérstakra ráðstafana.

Fyrri greinTakmörkuð umferð um Dyrhólaey
Næsta greinSveitarfélagið beiti sér gegn uppboðum