„Í raun urðum við fyrir tveimur áföllum í sumar í ræktuninni. Fyrst þessar rigningar þegar allt fór á flot af þessu sem við vorum búin að setja fyrst niður og má segja að um 10% af því sé ónýtt.
Síðan hélt bara áfram að rigna í sumar þannig að vöxturinn varð mjög hægur.“
Þetta segir Kristján Gestsson, bóndi í Forsæti IV í Flóahreppi, í samtali við Bændablaðið. Hann hóf kartöfluupptöku í upphafi ágúst af því sem ræktað var undir plasti. Annar hluti ræktunarinnar leit vægast sagt illa út fyrir nokkrum vikum.
„Við höfum sem betur fer fengið ágætt veður í ágúst og vonum að svo verði áfram. Ef við fengjum tíu daga til hálfan mánuð í viðbót eins og þetta hefur verið að undanförnu, þá verður ástandið hér bara orðið nokkuð gott. Maður vill helst fá um 20–25 tonn á hektara úr þeim 24 hekturum sem við erum með í ræktun, en það verður ekki núna,“ bætir Kristján við.