Ný myndskeið vísindamanna við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði og Dundee-háskóla í Skotlandi sýna ógnarhraða bráðnun Breiðamerkurjökuls síðastliðið sumar. Myndskeiðin hafa vakið mikla athygli fjölmiðla víða um heim.
Um er að ræða svokallaðar skeiðmyndir (e. time-lapse) sem teknar voru við austurjaðar Breiðamerkurjökuls á sex vikna tímabili undir lok sumars en vísindamennirnir á bak við þær vinna að nýju samstarfsverkefni um myndræna vöktun Breiðamerkurjökuls.
Skeiðmyndirnar tók og vann Kieran Baxter, vísindamaður og kennari í samskiptahönnun við Dundee-háskóla í Skotlandi, en hann er jafnframt nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði. Kieran hefur um árabil unnið með Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni rannsóknasetursins, og fleiri vísindamönnum að því að draga fram með myndrænum hætti þau miklu áhrif sem hlýnandi loftslag hefur á jökla á suðausturhluta landsins.
Í hinum nýju skeiðmyndum sést með sláandi hætti hvernig aldagamall ís hörfar við jaðar Breiðamerkurjökuls. Myndirnar undirstrika þau miklu áhrif sem hlýnandi loftslag hefur á það mikla aðdráttarafl ferðamanna sem jöklarnir eru.
Skeiðmyndirnar hafa vakið mikla athygli og fjallað hefur verið um þær í sumum af stærstu fréttamiðlum heims, eins og á BBC, NBC og Sky News – og nú á sunnlenska.is.
Auk Þorvarðar koma fleiri vísindamenn á Suðausturlandi að verkefninu, m.a. Snævarr Guðmundsson, jöklajarðfræðingur við Náttúrustofu Suðausturlands. Hann bendir á að myndskeiðin sýni aðeins brot af 16 km löngum jaðar Breiðamerkurjökuls en engu að síður undirstriki þau hraða bráðnun jökulsins. „Jökull er í jafnvægi þegar ákoma að vetri er jafnmikil og bráðnun að sumri. Því er hins vegar ekki að heilsa hér. Bráðnun jökulsins er meiri en ákoman og á síðustu áratugum hefur hann hopað allt að 250 metra á ári,“ segir Snævarr.
Hægt er að kynna sér skeiðmyndaverkefnið og ýmis önnur samstarfsverkefni hópsins á vefsíðu Kierans Baxter.