Bílvelta varð á Syðra-Langholtsvegi í Hrunamannahreppi um klukkan hálftvö í dag. Ökumaður var einn á ferð og slasaðist ekki.
Bíllinn hafnaði ofan í skurði og í fyrstu var óttast að ökumaðurinn væri fastur í bílnum. Tækjabílar Brunavarna Árnessýslu voru kallaðir út vegna slyssins. Þeim var síðan snúið við þegar maðurinn komst út úr bílnum.
Hálka og snjóþekja er á vegum sunnanlands og hvetur lögreglan ökumenn til að fara varlega.