Björgunarsveitir frá Hvolsvelli, Vík og Hellu voru kallaðar út klukkan 14:45 í dag vegna manns sem slasaðist á göngu í skriðjökli sem gengur niður af Sólheimajökli.
Um er að ræða erlendan ferðamann sem var á ferð með um 15 manna hóp og íslenskum leiðsögumönnum.
Samkvæmt fregnum frá slysstað er hann ekki alvarlega slasaður en ógangfær. Því þarf að bera hann af jöklinum og í sjúkrabíl.
Um 15-20 björgunarsveitarmenn taka þátt í aðgerðinni en böruburður í fjalllendi er afar erfitt verk og krefst mikils mannafla að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu.