Ökumaður bifreiðar sem valt á Suðurlandvegi til móts við Steinmóðarbæ undir Eyjafjöllum í kvöld slasaðist nokkuð og var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur.
Breskt par var í bílnum sem ekið var í vesturátt. Farþeginn var minna meiddur en hann var einnig fluttur til Reykjavíkur.
Bifreiðin fór tvær til þrjár veltur og er talin ónýt.
Í gær valt bíll við Syðri-Rauðalæk í gríðalegri hálku. Ökumaður og farþegi hans sluppu með skrekkinn en bifreiðin mikið skemmd.
Á laugardag varð umferðaróhapp á Suðurlandsvegi við Markarfljót er bifreið var ekið í veg fyrir aðra bifreið sem ekið var vestur Suðurlandsveg, ökumenn sluppu ómeiddir og þykir það mildi en nokkuð tjón varð á bifreiðunum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli.