Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út um klukkan 14:00 í dag til að sækja unglingsdreng sem slasaðist á göngu á milli Álftavatns og Hrafntinnuskers.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út. Ferðafólk sem statt var við Álftavatn fór sömuleiðis af stað með sjúkrabúnað og börur. Í þeim hópi var sjúkraflutningamaður.
Vegna slæmra aðstæðna gat þyrla Landhelgisgæslunnar ekki lent nær slysstað en um þremur kílómetrum frá. Gengu læknir og sigmaður á slysstaðinn til að hlúa að drengnum og undirbúa hann fyrir flutning.
Þegar aðstæður breyttust tókst þyrlunni að fljúga nær þannig að hægt var að koma drengnum um borð án þess að bera hann langa leið. Ekki er talið að hann sé alvarlega slasaður.
Þyrlan flutti drenginn á sjúkrahús í Reykjavík og björgunarsveitir könnuðu hvort ferðafélagar hans þyrftu aðstoð við að komast til byggða.