Björgunarsveitum í Árnessýslu hafa borist tvö útköll eftir hádegi í dag vegna slysa á fólki fjarri alvaraleið.
Um er að ræða unga stúlku sem slasaðist á fæti við hrygginn Sköflung á Hengilssvæðinu og gönguskíðamann á Langjökli sem einnig slasaðist á fæti.
Björgunarsveitarfólk fór á vettvang á Hengilssvæðinu og aðstoðuðu sjúkraflutningamenn frá höfuðborgarsvæðinu og Heilbrigðisstofnun Suðurlands við að flytja stúlkuna af vettvangi, hún gat ekki gengið sjálf og því þurfti að bera hana og flytja á sexhjóli að sjúkrabíl á Nesjavallaveginum.
Klukkan 14:07 barst svo útkall vegna gönguskíðamanns á Langjökli sem slasaðist á fæti og komst ekki af sjálfsdáðum til byggða. Maðurinn hélt kyrru fyrir ásamt ferðafélaga sínum og beið eftir aðstoð. Nærstaddur hópur björgunarsveitafólks fór á vettvang á snjósleðum ásamt öðrum hópum björgunarsveita sem komu á jeppum frá uppsveitum Árnessýslu ásamt sjúkraflutningamönnum.