Slátrarar frá Póllandi og Nýja Sjálandi

Slátrun hefur gengið mjög vel það sem af er sláturtíðinni að sögn Einars Hjálmarssonar, stöðvarstjóra SS á Selfossi.

,,Þetta hefur gengið ótrúlega vel,“ sagði Einar en sauðfjárslátrun hófst 8. september og stendur til 5. nóvember. Vegna sauðfjárslátrunarinnar hafa verið ráðnir inn ríflega 100 starfsmenn en á meðan á haustslátrun stendur eru 133 starfsmenn hjá félaginu.

Talsverður hópur kemur frá Póllandi eða um 30 manns. Einnig koma 7 slátrarar frá Nýja Sjálandi og sagði Einar að margt af þessu fólki kæmi ár eftir ár til starfa hjá þeim. Hann sagði gott að geta fengið vant fólk til starfa og þessir starfsmenn hefðu reynst vel.

Einar sagðist gera ráð fyrir að um 100.000 kindum yrði slátrað þetta haustið sem er svipað og var fyrir ári síðan. Sláturhúsið á Selfossi tekur við kindum allt austur úr Öræfum og einnig vestur á land eða frá Borgarfirði, Snæfellssnesi og úr Dölunum. Mikil fækkun hefur orðið hjá þeim húsum sem stunda haustslátrun og eru ekki starfrækt sláturhús fyrr en kemur austur á Hornafjörð og norður á Hvammstanga. Af því leiðir að sláturhúsið á Selfossi starfar á mun stærra svæði.

Þegar haustslátrun lýkur verður horfið til hefðbundinna verkefna en Einar sagði að þar væri stórgripaslátrun fyrirferðamest.

Fyrri greinBorgarafundur á Hvolsvelli
Næsta greinHafþór og Hrannar dottnir út