Slegist um sætin á ráðstefnu

Gríðarstór alþjóðleg ráðstefna um ljósmyndun verður haldin á Hótel Selfossi dagana 10. til 16. júní næstkomandi á vegum samtaka víðmyndaljósmyndara.

Eftirsókn í að komast á ráðstefnuna hefur verið mikil og hafa aðstandendur hennar þurft að vísa fjölda fólks frá. Nær allir þátttakendurnir, 125 talsins, koma erlendis frá og gista þeir langflestir á hótelinu á Selfossi og á gististöðum í grennd.

Að sögn Ásbjörns Jónssonar hótelstjóra er um að ræða mjög þekkta ljósmyndara með sérþekkingu á sviði ljósmyndunar. Einn umsjónaraðila ráðstefnunnar er Ólafur Haraldsson, ljósmyndari sem varð þess valdandi að henni var valinn staður á Selfossi.

Á milli námskeiða munu ljósmyndararnir fá tíma til að taka ljósmyndir í náttúru landsins og hafa þátttakendur fengið upplýsingar um fyrirfram ákveðna staði sem teljast henta til víðmyndatöku.

Fyrri greinSextán grunnskólamet slegin
Næsta greinHS veitur í nýju húsnæði