Ferða- og útivistarfélagið Slóðavinir stendur fyrir fræðslufundi í kvöld þar sem svæðinu ofan Búrfells milli Þjórsár og Tungnár verður gerð skil.
Á þessu feikistóra svæði er ótrúlega margt að sjá og upplifa. Slóðavinir hafa fengið fjóra fyrirlesara til að svipta hulunni af, leyndum náttúruperlum, áhugaverðum veiðistöðum, sögunni og þeirri miklu orkunýtingu sem fer fram á svæðinu.
Ingibjörg Sveinsdóttir fjallar um áhugaverða staði á Holtamannaafrétti, Gunnar Sigurgeirsson segir frá fiskunum í Veiðivötnum og nálægum ám og vötnum, Bjarni Harðarson segir frá yfirskilvitlegum plátzum og svo verða umsvif Landsvirkjunar á hálendinu ofan Búrfells kynnt.
Allir áhugasamir eru velkomnir en fundurinn hefst kl. 20:00 að Austurvegi 56, 3. hæð, á Selfossi.