Ökumaður og farþegi sluppu með minniháttar meiðsli eftir bílveltu á Eyrarbakkavegi nú síðdegis.
Bifreiðin var á vesturleið þegar hún fór útaf veginum og valt tvær veltur. Hún hafnaði á hjólunum í þykkri sinu en hiti frá pústkerfi bifreiðarinnar varð þess valdandi að eldur kviknaði í sinunni og breiddist út í kringum bílinn.
Slökkvilið á Selfossi var kallað út og réð niðurlögum eldsins.
Ekki er vitað um tildrög slyssins á þessari stundu.
Töluvert annríki hefur verið hjá Selfosslögreglunni í dag. Í morgun valt bifreið á Gjábakkavegi og um miðjan dag sagaði maður á Flúðum í höndina á sér með veltisög.