Vegfarendur tilkynntu Neyðarlínu 112 um að talsverður eldur væri við sveitabæ í Ölfusi síðastliðið mánudagskvöld.
Myrkur var orðið og mikinn bjarma stafaði af eldinum sem sást langar leiðir. Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu voru kallaðir út og lögðu af stað til þess að sinna slökkvistörfum en miðað við lýsinguna var ekki ólíklegt að þarna væri um eld í húsi að ræða.
Fljótlega eftir að slökkviliðsmenn voru lagðir af stað kom í ljós að þarna var ekki um eld í byggingu að ræða heldur var verið að brenna rusl.
Í færslu Brunavarna Árnessýslu á Facebook segir að heimilt sé að brenna hreint timbur, undir einum rúmmetra sem logar ekki lengur en í eina klukkustund.
Ruslið sem brann í Ölfusinu var einungis timbur en magnið var talsvert yfir því magni sem má brenna í einu og útskýrir það hve mikinn bjarma stafaði var af eldinum.
„Ætli maður sér að brenna bálköst í myrkri þar sem til sést langar leiðir er sjálfsögð kurteisi að láta vita hjá viðkomandi slökkviliði eða lögreglu hvað standi til. Það kemur að öllum líkindum í veg fyrir að mikið lið viðbragðsaðila sé boðað á staðinn með tilheyrandi hættu í umferðinn, óþægindum og kostnaði,“ segir í færslu Brunavarna Árnessýslu.