Slösuð kona borin niður úr Ingólfsfjalli

Björgunarsveitamenn í Árnessýslu og sjúkraflutningamenn frá Selfossi voru kallaðir út eftir hádegi í dag til þess að sækja konu sem slasaðist á göngu niður úr Ingólfsfjalli.

Konan, sem var á vinsælli gönguleið í fjallinu, hrasaði í hálku og slasaðist á hné og hugsanlega víðar auk þess sem hún var orðin köld. Kalt og hvasst er í fjallinu, skafrenningur og nokkur hálka.

Ástæður í fjallinu voru nokkuð erfiðar til burðar þar sem nokkur hálka var í fjallinu og talsverður bratti. Konan var stödd um miðja vegu uppi í fjallinu, fyrir ofan Þórustaðanámu. Því þurfti töluverða línuvinnu til að koma henni í björgunarsveitabílinn. Rúmlega 30 manns frá björgunarsveitum á Suðurlandi og sjúkraflutningum Selfoss tóku þátt í aðgerðinni.

Konan var borin niður í björgunarsveitarbíl sem ók konunni að sjúkrabíl sem beið við rætur fjallsins.

Björgunarfélagið Eyvindur á Flúðum var einnig á ferðinni í dag til aðstoðar sjúkraflutningamönnum við Geysi þar sem maður fótbrotnaði á öðrum tímanuim í dag.

UPPFÆRT KL. 15:08

Fyrri greinBúist við ofsaveðri í kvöld
Næsta greinAlvarlegt slys á Hellisheiði