Bíll með sjö manns innanborðs valt á Laugarvatnsvegi við afleggjarann að Böðmóðsstöðum á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Fólkið slapp við alvarleg meiðsli.
Þegar Neyðarlínan fékk tilkynningu um slysið kom fram að fólk væri fast í bílnum og því var viðbúnaður björgunarliðs mikill.
Auk lögreglu og sjúkraliðs var kallað til vettvangshjálparlið frá Björgunarfélaginu Eyvindi á Flúðum. Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Laugarvatni voru kallaðir til á tækjabíl auk þess sem mannskapsbíll frá BÁ á Flúðum var kallaður til ef skjól eða flutningstæki þyrfti fyrir fólk á staðnum.
Ekki þurfti að beita klippum við að ná fólkinu út og voru allir komnir út þegar björgunarlið kom á vettvang.
Allir farþegarnir sjö voru fluttir til aðhlynningar og skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og reyndist enginn alvarlega slasaður.