Sluppu með skrámur úr bílveltu

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungur ökumaður og tveir farþegar sluppu með skrekkinn þegar bíll þeirra valt út fyrir veg á Hvammsvegi við Gljúfurárholt í Ölfusi síðdegis í dag.

Ökumaðurinn missti stjórn á bílnum í beygju og valt bíllinn að minnsta kosti tvær veltur út fyrir malbikaðan veginn.

„Ökumaðurinn og farþegarnir komust út af sjálfsdáðum og sluppu með skrámur. Það var hlúð að þeim í sjúkrabíl á vettvangi sem ók þeim síðan á bráðamóttökuna á Selfossi,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Talsvert viðbragð var vegna slyssins en auk lögreglu og sjúkraflutningamanna voru liðsmenn Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði kallaðir út, þar sem talið var í fyrstu að beita þyrfti klippum til að ná fólkinu úr bílnum. Slökkviliðsmenn hreinsuðu brak á vettvangi og sáu til þess að olía læki ekki af bílnum, sem er stórskemmdur eftir veltuna.

Fyrri greinKynningarkvöld fyrir nýja félaga
Næsta greinHSU fékk 4 milljóna króna nýsköpunarstyrk