Rjúpnaskytta varð fyrir slysaskoti í Eldhrauni, skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur, laust eftir klukkan þrjú í dag.
Í tilkynningunni til lögreglu kom fram að skotið hefði hafnað í öðrum fæti mannsins. Það voru veiðifélagar mannsins sem kölluðu eftir aðstoð og veittu hinum slasaða fyrstu hjálp og hárrétt viðbrögð við slysinu, að sögn lögreglu.
Var hinn slasaði með fulla meðvitund allan tímann en um er að ræða karlmann á sjötugsaldri. Var hann fluttur til aðhlynningar á heilsugæsluna á Kirkjubæjarklaustri en þar mat læknir áverkana á fæti mannsins það alvarlega að kallað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Var hinn slasaði fluttur með sjúkrabifreið til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-LÍF sem lenti á flugvellinum austan við Vík í Mýrdal um klukkan 16:00. Þaðan var flogið með hinn slasaða á Landspítalann í Fossvogi.