Landsmót slysavarnadeilda var haldið í Hveragerði á dögunum. Innan Landsbjargar starfa 37 slysavarnadeildir um land allt, sem hafa það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir slys og óhöpp í sínu sveitarfélagi, ásamt því að vinna með björgunarsveitunum við hin ýmsu verkefni og veita þeim fjölþættan stuðning vegna útkalla og aðgerða.
Í lok september komu saman á Hótel Örk í Hveragerði rúmlega 200 félagar úr slysavarnadeildum frá landinu öllu til að fræðast, ræða slysavarnir og bera saman bækur sínar.
Dreifa 22 þúsund endurskinsmerkjum og 9.000 endurskinsvestum
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs flutti erindi um krísustjórnun á tímum Covid 19 og mikilvægi teymisvinnu. Margrét Steinunn Guðjónsdóttir, sálgætir ræddi mikilvægi áfallahjálpar og hvað fellst í því að veita sálræna fyrstu hjálp. Einnig var rætt í minni hópum um árleg verkefni deildanna og félagsins sem framundan eru eins og til dæmis endurskinsmerki en félagseiningar gefa árlega um 12.000 endurskinsmerki og dreifa í ár um það bil 10.000 til viðbótar frá Samgöngustofu. Að auki stendur til að dreifa 9.000 endurskinsvestum fyrir leikskólabörn og 1. bekk grunnskóla sem merkt eru landsátakinu Allir öruggir heim og númeri Neyðarlínunnar 112. Átakið er unnið í góðu samstarfi við Dynjanda og 14 önnur fyrirtæki.
Frábærar móttökur í Hveragerði
Landsmót er haldið á tveggja ára fresti og í ár komu félagar frá 24 bæjarfélögum til að bera saman verkefni sín og fá hugmyndir að nýjum forvarnaverkefnum. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að Hveragerðisbær hafi tekið frábærlega á móti félögum og tími var tekinn frá til að skoða bæinn, kynna sér fyrirtæki á svæðinu ásamt því að hafa örlítið gaman saman.
„Aldrei verður hægt að koma í veg fyrir öll slys, líklega átta sig flestir á því. Það er því ómetanlegur fjársjóður fyrir íslenskt samfélag að eiga um það bil 4.000 sjálfboðaliða um land allt sem sérhæfa sig í forvörnum á sviði slysavarna,“ segir í tilkynningu Landsbjargar.