Smári McCarthy ætlar að bjóða sig fram í fyrsta sæti í Suðurkjördæmi fyrir Pírata í þingkosningum í haust.
Hann tekur af allan vafa um þetta á pírataspjallinu í dag þar sem hann svarar fyrirspurn um hvort hann ætli sér að fara fram.
mbl.is greinir frá þessu.
„Ég fer í það sæti sem sunnlenskir Píratar setja mig, en mig langar til að taka fyrsta sætið,“ segir Smári en hann ætlar að flytjast til Íslands í lok ágúst eftir að klára verkefni sem hann vinnur að í Bosníu og Hertzegovínu, þar sem hann er búsettur núna.
Hann segist velja Suðurkjördæmi þar sem hann sé uppalinn í Vestmannaeyjum að hann þurfi að „representa,“ en áður hafði fólk velt því fyrir sér hvort hann færi fram í kraganum eða Reykjavík.
Smári var í 1. sæti hjá Pírötum í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar árið 2013 og var nálægt því að komast inn á þing.