Á næstunni munu hefjast framkvæmdir við heilsugæslustöðina á Hellu sem komin er til ára sinna. Að verki loknu má segja að komin verði ný heilsugæslustöð í þorpið, miðuð við nútímastaðla.
Að sögn Óskars Reykdalssonar, framkvæmdastjóra lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, verða gerðar miklar endurbætur á húsinu og má búast við að verkið standi fram á næsta vetur.
„Húsnæðið uppfyllir ekki nútímastaðla er varða öryggi og því þarf að laga þetta. Núna er unnin þarfagreining og á næstu vikum hefst svo hönnun stöðvarinnar innan þess rýmis sem er til staðar fyrir stöðina í dag,“ sagði Óskar í samtali við sunnlenska.is. „Það má nánast búast við því að stöðin verði gerð fokheld að innan, milliveggir og lagnir endurnýjaðar og gerð ný heilsugæslustöð miðuð við nútímastaðla.“
Húsið er í eigu Fasteigna ríkisins sem munu sjá um framkvæmdina. „Við fögnum þessari framkvæmd sem mun bæta aðstöðuna á staðnum og einnig skapa vinnu á meðan á framkvæmdum stendur,“ segir Óskar og bætir við að kostnaðaráætlun fyrir verkið sé ekki tilbúin en búast megi við því að kostnaðurinn verði á milli 20 og 40 milljónir króna.