Lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi er lokuð vegna COVID-19 smits. Gestum er óheimilt að koma á deildina nema í undantekningartilvikum.
Sjúklingur sem lá inni á deildinni greindist smitaður af COVID-19 í gærkvöldi, en hann lá ekki inni þess vegna.
Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, segir í samtali við mbl.is að deildin hafi verið sótthreinsuð og nýtt fólk sett í vinnu. „Þá voru þetta um þrjátíu starfsmenn og aðrir tengdir sem þurfti að skima vegna smitsins,“ segir Baldvina.
Sjúklingurinn fór í skimun eftir að aðstandandi hans, sem hafði komið í heimsókn á sjúkrahúsið, hafði greinst smitaður.