Í gærkvöldi kom í ljós að starfsmaður í Setrinu, sérdeildinni í Sunnulækjarskóla á Selfossi, reyndist smitaður af COVID-19.
Í samráði við smitrakningarteymið þurfti því að setja einn nemendahóp og alla starfsmenn Setursins í sóttkví. Þá hafði starfsmaðurinn fundað með umsjónarkennurum og sérkennara í 1. bekk og því þurfa þeir einnig að fara í sóttkví. Að sögn Birgis Edwald, skólastjóra, er um að ræða átta nemendur og 26 starfsmenn.
„Sóttkvíarskimun mun fara fram á fimmtudag í þessari viku og vonandi verða það góðar niðurstöður,“ sagði Birgir í samtali við sunnlenska.is.
Í dag og á morgun er starfsdagur og foreldradagur í Sunnulækjaskóla þar sem fram fara foreldraviðtöl í fjarfundi. Almenn kennsla hefst aftur á miðvikudag og þá munu forfallakennarar sinna nemendum í 1. bekk.
Þetta er í annað skiptið sem smit kemur upp í Sunnulækjarskóla en í fyrra skiptið fóru samtals 600 nemendur og starfsmenn í sóttkví og greindist ekkert smit í hópnum í kjölfarið.