Vegagerðin mun senda SMS í alla farsíma í gegnum kerfi Neyðarlínunnar þar sem varað verður við veðrinu sem er á leiðinni til landsins.
Sérstaklega verða send SMS á Norðurlandi vegna líklegrar lokunar á Ólafsfjarðarvegi norðan Dalvíkur og á Suðurlandi vegna sandstorms sem búist er við á Skeiðarársandi á jóladag og annan í jólum.
Þetta er í fyrsta sinn sem SMS eru send á þennan hátt að SMS-in nái til nær allra farsíma þótt Vegagerðin hafi notað þessa aðferð til að mynda með því að senda skeyti til flutningsaðila.
Samkvæmt upplýsingum Einars Sveinbjörnssonar hjá Veðurvaktinni verður slæmt veður á Norður- og Austurlandi yfir jólin. Eins verður ekkert ferðaveður í dag á Vestfjörðunum.
Á Suður- og Suðvesturlandi verður veðrið skaplegra yfir jólahátíðina. Þar verður hefðbundin hvöss norðanátt án úrkomu og hita um eða rétt undir frostmarki. Sumstaðar á því svæði getur þó orðið smávægilegur skafrenningur en ekki snjókoma. Þó má búast við sandfoki og illviðri sunnan Vatnajökuls frá því á aðfangadagskvöld.