Í morgun mætti smyrill óvænt á fund sem Framkvæmda- og veitustjórn Árborgar hélt í borholuskúr á Ósabotnum.
„Það leit svo út að lítill músarindill hafi tælt smyrilinn inn í skúrinn – en óneitanlega var það skemmtileg tilfinning að handsama þennan konunglega fugl og sleppa honum svo,“ sagði Bjarni Harðarson sem situr í Veitustjórninni fyrir Vinstri græna.
Bjarni fór úr jakkanum og notaði ermarnar sem hanska enda gerði smyrillinn sig líklegan til þess að bíta í hendurnar á honum.
„Formaður nefndarinnar sagði að nú reyndi á karlmennskuna um hver myndi handsama fuglinn en ég lít pólitískt á þetta því smyrillinn kaus greinilega að vera vinstri grænn,“ segir Bjarni, „og þar með var meirihluti Sjálfstæðismanna fallinn í veitustjórninni.“
Handsömunin varð músarrindlinum til lífs þar sem hann húkti úti í horni í dæluskúrnum en þegar nefndarmenn héldu á brott var smyrillinn enn í nágrenninu, leitandi að annarri bráð.