Snarpur jarðskjálfti á Suðurlandi

Snarpur jarðskjálfti fannst víða á Suðurlandi kl. 23:14 í kvöld. Samkvæmt yfirförnum tölum frá Veðurstofu Íslands var skjálftinn 3,9 að stærð með upptök við norðan Gíslholtsfjall á austurbakka Þjórsár.

Skjálftinn fannst vel á Selfossi og víðar í Flóanum en einnig hefur sunnlenska.is borist tilkynningar allt austan frá Hvolsvelli og úr Landeyjunum og einnig úr uppsveitum Árnessýslu. Skjálftinn fannst til dæmis mjög vel í Grímsnesinu og einnig á Flúðum. Þá urðu árvakrir sunnlendingar í Reykjavík varir við skjálftann.

Annar skjálfti, um 2,3 að stærð, varð á sama tíma 3,1 km sunnan við Hveragerði.

Viðmælendur sunnlenska.is á Selfossi og nágrenni lýstu skjálftanum sem góðu höggi á hús sín og víða blikkuðu ljós í húsum.

„Þetta var vænn hristingur og dálítið mikið högg,“ sagði Ingibjörg Eiríksdóttir í Hnakkholti í Holtum í samtali við sunnlenska.is en hún býr um það bil 5 kílómetra frá áætluðum upptökum skjálftans. „Það færðist aðeins til í glerskápum hérna,“ sagði Ingibjörg og bætti við að hundarnir sínir væru búnir að vera „óvenjulegir“ í kvöld. „Þau voru bæði heillengi úti í kvöld, án þess að gera minnstu tilraun til að biðja um að koma inn – sem er afar ólíkt tíkinni.“

Fyrri greinÖrt batnandi vatnsstaða í miðlunarlónum
Næsta greinHjólhýsi brann í Þjórsárdal