Öflugur jarðskjálfti fannst víða á Suðurlandi klukkan 21:51 í kvöld. Hlutir hrundu úr hillum í húsum á Selfossi. Yfirfarin mæling Veðurstofunnar segir að skjálftinn hafi verið af stærðinni 3,7.
Skjálftinn er í hrinu sem hófst í Sortanum í Flóahreppi síðdegis í dag. Að sögn sérfræðings hjá Veðurstofunni eru skjálftarnir á þekktu skjálftabelti og erfitt sé að segja um hvert framhald hrinunnar verði. Skjálftahrinan er ekki á gossvæði.
Tveir skjálftar urðu á sömu mínútunni, kl. 21:51, og upplifði fólk þá sem langan samfelldan skjálfta. Fyrri skjálftinn var af stærðinni 2,4 og sá síðari 27 sekúndum seinna af stærðinni 3,7.
Á bæjum í Flóahreppi, nálægt upptökum skjálftanna, skekktust myndir á veggjum, hlutir féllu í gólfið og færðust til í skápum.
Símasamband fór af Stokkseyri um tíma en er komið á aftur núna kl. 22:04.
Hvergerðingar urðu skjálftanna varir og þeir fundust vel á Eyrarbakka og á Stokkseyri, sem og í Sandvíkurhreppi. Tíðindamenn sunnlenska.is allt austur á Hvolsvöll fundu skjálftann einnig vel, sem og á Laugarvatni og þá glamraði í glerskáp á Böðmóðsstöðum í Biskupstungum.
Fjöldi skjálfta hefur mælst á svæðinu frá því síðdegis í dag. Í kjölfar stærsta skjálftans í kvöld fylgdi annar af stærðinni 3,1 klukkan 22:02 og fannst hann einnig víða.
TENGDAR FRÉTTIR:
Jörð skelfur í Flóanum