Kostnaður við snjómokstur í Árborg árið 2014 var kominn í 16 milljónir króna áður en snjóþungur desembermánuður skall á. Gert var ráð fyrir 11,5 milljónum í fjárhagsáætlun.
„Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 var gert ráð fyrir 11,5 milljónum í snjómokstur og hálkueyðingu, þ.e. söltun og söndun á götum og gangstígum. Kostnaður sem búið er að færa inn og samþykkja fyrir árið 2014 er kominn í 16 milljónir. Hafa ber í huga að ennþá vantar reikninga fyrir þjónustu í desembermánuði, svo þessi tala á eftir að hækka,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, í samtali við Sunnlenska.
Í fjárhagsáætlun 2015 er gert ráð fyrir 13,3 milljónum í þessa vetrarþjónustu.
„Á fyrstu vikum ársins 2014 voru langir kaflar þar sem hálka var mikil og því var talsverðu fé varið í hálkueyðingu, en minna reyndi á snjómokstur. Framan af yfirstandandi vetri var veðrið með ágætum, en snjókoman í desember mun kosta talsverð fjárútlát,“ segir Ásta.
Hún segir ávallt erfitt að áætla kostnað við þessa þjónustu. „En við reynum að sjá til þess að íbúar komist ferða sinna með þokkalegu móti,“ bætir Ásta við.