Mörgum brá eflaust í brún þegar þeir litu út um gluggann í morgun. Vorið sem virtist í gær vera á næsta leiti virkar nú eins og fjarlægur draumur.
Berglind Kristinsdóttir í Gerðakoti í Ölfusi vaknaði all hressilega þegar hún opnaði útihurðina að heimilinu sínu í morgun. Stærðarinnar skafl var fyrir hurðinni sem það sem verra er að fjölskyldan á bara eina klósettrúllu eftir.
„Það var kominn einhver snjór í gærkvöldi en ekkert í líkingu við þetta, mest bara fyrir gluggana,“ segir Berglind í samtali við sunnlenska.is
„Þetta er aðalhurðin og sú eina sem hægt er að komast út um í augnablikinu. Við erum einnig með hurð í þvottahúsinu sem er lokuð vegna framkvæmda en það myndi hvort sem er ekki breyta neinu, það er eins farið með hana. Það er ekki nokkur leið að komast út vegna snjóskafla,“ segir Berglind.
Aðspurð afhverju þau hafi ekki birgt sig upp af klósettpappír eins og þorri landsmanna segir Berglind að hún hafi einfaldlega talið það nokkuð víst að það yrði nóg af klósettpappír í verslunum og var því ekki með neinar áhyggjur að verða uppiskroppa með pappír.
„Ég hefði betur gert ráð fyrir stórhríð í byrjun apríl og undirbúið okkur fjölskylduna undir að komast ekki út úr húsinu vegna snjós og sankað að mér nokkrum rúllum,“ segir Berglind hlæjandi að lokum.
Sama veður 1996
Þess má geta að 4. apríl 1996, á skírdag, gerði svipað veður og nú. Mikið óveður skall á fyrir hádegi og varð fljótt allt ófært. Þá var byrjað að ferma börn, t.d. börn frá Hellu í Oddakirkju. Fermingarbörnin komust heim eftir athöfnina en ekkert varð um veislur. Hjá mörgum voru matföngin og tilbúnu köldu borðin föst í sendibílum á Hellisheiði. Veislur voru hjá sumum daginn daginn eftir. Ef ekki væri fyrir samkomubann vegna COVID-19 þá má ætla að svipaða sögu væri að segja núna en margir áttu að fermast í dag, pálmasunnudag.
Eftir þennan gríðarlega snjóbyl 1996 kom svo vorið og sumarið var var gott segja menn. Sunnlendingar eru því beðnir um að örvænta ekki og halda í vonina um að sumarið verið gott líkt og fyrir tuttugu og fjórum árum.