Neyðarlínan fékk tilkynningu í hádeginu í gær um eld í parhúsi í Reykholti í Biskupstungum en nágranni hafði orðið eldsins var.
Eldurinn var bundin við baðherbergið í húsinu þar sem var opinn gluggi. Nágranninn brást hratt við og lokaði glugganum og má leiða að því líkum að það hafi dregið verulega úr útbreiðslu eldsins þar sem súrefnisþurrð í baðherberginu dró verulega úr mætti hans.
Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu í Reykholti, Flúðum og Laugarvatni voru boðaðir á staðinn. Slökkviliðsmenn BÁ frá Reykholti voru fyrstir á staðinn og réðu þeir niðurlögum eldsins snarlega.
Pétur Pétursson, varaslökkviliðsstjóri, segir að snör viðbrögð nágrannans og vaskleg framganga slökkviliðsmanna hafi forðað milljóna tjóni í þessu útkalli svo ekki sé talað um allt það tilfinningalega tjón sem fólk getur orðið fyrir við atburði sem þessa.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi kom eldurinn upp í bastkörfu en í henni var hárblásari sem var tengdur í rafmagn. Allt bendir til að rafþráður í hárblásaranum hafi verið trosnaður og slegið saman.